Fara á efnissvæði

Heilsuefling á efri árum

Heilsueflandi samfélag er heildræn nálgun sem embætti landlæknis vinnur að í samstarfi og samráði við sveitarfélög, opinberar stofnanir og frjáls félagasamtök. Heilsuefling á efri árum tilheyrir heilsueflandi samfélögum og snýr að þeim þáttum sem snertir áhrifaþætti heilsu eldra fólks. 

Heilsueflandi samfélög og efri ár

Í Heilsueflandi samfélagi er heilsa og líðan allra íbúa í fyrirrúmi í allri stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum og allir geirar hafa hlutverk. Í verkefninu eru gátlistar sem sveitarfélög geta nýtt til að vinna með áhrifaþætti heilbrigðis og vellíðanar, svo sem félags-, efnahags- og menningarlegar aðstæður, manngert og náttúrulegt umhverfi til að skapa sem ákjósanlegastar aðstæður í lífi, leik og starfi fyrir fólk á öllum æviskeiðum.

Hér má finna atriði úr gátlistum heilsueflandi samfélags sem snúa að eldra fólki. 

Heilsa og vellíðan skiptir máli alla ævi – líka á efri árum!

Með hækkandi aldri verður enn mikilvægara að hlúa að heilsu og vellíðan til að viðhalda lífsgæðum.

Ýmsir þættir hafa áhrif á það hvernig okkur tekst að viðhalda og efla líkamlega, andlega og félagslega heilsu – og þessir þættir snúa bæði að einstaklingnum sjálfum og umhverfi hans.

„Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku.“
- WHO, 1948

„Lýðheilsa felur í sér markvissar aðgerðir hins opinbera og annarra sem miða að því að bæta heilsu, líðan og lífsgæði þjóða og þjóðfélagshópa.“
- WHO, 1998